Tveir erlendir fjárfestar eru nú meðal lykilfjárfesta í Össuri en sænska fjárfestingarfélagið Industrivärden keypti tæp 16% í félaginu árið 2002 og er annar stærsti hluthafi félagsins. Fyrr í dag var greint frá kaupum danska fyrirtækisins William Demant Invest sem hefur keypt 20 milljón hluti í Össuri sem nemur 6,28% af heildar hlutafé. Að mati Greiningar ÍSB eru kaup hinna dönsku fjárfesta jákvæð fyrir Össur og hluthafa félagsins og gefa e.t.v. vísbendingu um enn frekari áhuga erlendra fjárfesta á félaginu.

Í Morgunkorni Greiningar ÍSB er bent á að nú sem fyrr sé Össur eitt fárra félaga í Kauphöllinni þar sem erlendir fjárfestar eru áberandi. Auk Össurar er bein fjárfesting erlendra fjárfesta mest í Og Vodafone en í kjölfar kaupa á erlendum félögum eignuðust erlendir fjárfestar einnig hluti í KB banka og Bakkavör. Greining ÍSB hefur um nokkurt skeið mælt með kaupum á hlutabréfum Össurar en síðasta verðmatsgengi er 66,0 frá því í byrjun maí. Seljandi er Mallard Holding, eignarhaldsfélag Össurar Kristinssonar stofnanda Össurar, sem á eftir viðskiptin 18,7% hlut.