Greining Íslandsbanka segir kauptilboð ríkissjóðs í tvo skuldabréfaflokka í evrum jákvæða aðgerð. Með aðgerðinni sendi yfirvöld út skilaboð á markaðinn þess efnis að nægilegt borð sé fyrir báru í gjaldeyrisforða landsins til að greiða upp ofangreinda flokka. Skuldabréfin eru meginhluti erlendra skuldbindinga ríkissjóðs sem falla á gjalddaga næstu tvö árin.

Eins og áður hefur verið greint frá er ætlun ríkissjóðs að kaupa bréf fyrir allt að 300 milljónir evra. Hann áskilur sér þó rétt til þess að hækka eða lækka þessa fjárhæð að vild. Lágmarks kaupverð er 0,95 cent fyrir evru nafnverðs í þeim bréfum sem falla á gjalddaga 2011 og 0,9625 cent fyrir evru nafnverðs bréfa á gjalddaga 2012. Það er lítillega undir sölutilboðum flokkana samkvæmt Reuters í dag, að því er fram kemur í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Greiningardeildin segir að tvennt geti gerst. Töluverður hluti skuldabréfaeigendanna getur verið tilbúinn til að selja þau á eða nærri lágmarksverðinu. Þá hefur ríkissjóður sparað sér greiðslu á þeim hluta höfuðstólsins. Sparnaðurinn svarar til afsláttar frá nafnverði þegar kemur að gjalddaga. Einnig getur það gerst að fjárfestar verði tregir til að selja bréfin með afslætti, og má þá vænta þess að krafa þeirra á eftirmarkaði erlendis, og þá einnig skuldatryggingarálag ríkissjóðs, lækki í kjölfarði.

Útboði lýkur 22. júní næstkomandi.