Greiningardeild Glitnis telur að kauptækifæri séu í 8 félögum á markaðinum en þeir telja að gengi þeirra muni hækka um meira en 10% fyrir árslok. Þessi félög eru Kaupþing, Landsbankinn, Glitnir, Straumur-Burðarás, Exista, EL Group, Atorka Group og Icelandair Group. Af þessum félögum telja þeir að Kaupþing og Icelandair Group muni hækka mest á seinni helmingi ársins.


Greiningardeild Glitnis spáir 45% hækkun Úrvalsvísitölunnar yfir þetta ár og 12% á seinni hluta ársins. Góð arðsemi, stöðugur rekstur, ytri vöxtur og væntingar þar um munu að þeirra mati stuðla að hækkun á verði hlutabréfa á árinu. Greitt aðgengi að fjármagni mun einnig hafa jákvæð áhrif. Á móti kemur að háir innlendir skammtímavextir auk hækkandi vaxta erlendis munu draga úr áhuga fjárfesta á hlutabréfum. Kann því hluti fjárfesta að gera sér ávöxtun öruggari fjárfestingakosta að góðu.


Greiningardeild Glitnis gerir almennt ráð fyrir góðri afkomu hjá fjármála- og fjárfestingarfyrirtækjum og að þau styðji að stærstum hluta við hækkun hlutabréfaverðs til ársloka.

Athugasemd: Þess ber að geta að greinin var sett í loftið og þá eignuð Landsbankanum. Hið rétta er að þetta kom frá Greiningu Glitnis. Eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á þessu.