Í gær voru staðfest kaup á bandaríska stuðningsfyrirtækinu Innovation Sports Inc. Ef miðað er við kaupverð og EBITDA þá er kaupverðið 10,6 x EBITDA sem Greining Íslandsbanka telur viðunandi verð að því gefnu að framlegðarbatinn náist. Í kjölfar endurskipulagningar má gera ráð fyrir að EBITDA Innovation Sports verði um 7,6 milljónir USD frá og með árinu 2007 segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Gera má ráð fyrir að bætt afkoma komi til vegna samblands af auknum tekjum og hærra EBITDA hlutfalli.

Innovation er sérhæft í þróun og framleiðslu á liðbandsspelkum og eru áætlaðar tekjur félagsins um 19 milljónir USD og er einnig áætlað að leiðrétt EBITDA verði 19% á árinu 2005. Ætlunin er að verja um 3 milljónum USD til endurskipulagningar og uppbyggingar á rekstrinum á árinu 2006 og er áætlað að rekstrarbatinn verði um 4 milljónir USD á ári frá og með árinu 2007.

Kaupin eru fjármögnum með 40 milljóna USD kúlubréfi sem kemur til greiðslu á árinu 2011 - 2012. Afkomuspá fyrir Össur verður uppfærð og má nú gera ráð fyrir að tekjur félagsins á árinu aukist sem nemur tekjum Innovation Sports, en endurskipulagningarkostnaðurinn á árinu 2006 nemur nánast allri leiðréttri EBITDA framlegð félagsins í ár.