Andri Árnason tók til varna fyrir hönd Landsbankans í máli Lífeyrissjóðs bankamanna gegn bankanum, Seðlabankanum, Reiknistofu bankanna, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtæka og ríkinu. Benti á að af samtímagögnum mætti ráða að strax árið 2006 hefði sjóðnum verið ljóst í hvað stefndi. Málið allt, ef það hefði þá einhvern tímann verið til staðar, væri löngu ónýtt sökum fyrningar og tómlætis. Í raun væri verið að klæða kröfu um peningagreiðslu í búning kröfu um breytingu á samkomulagi til að komast hjá fyrningu.

Bankinn byggir kröfur sínar þó að mestu leyti á aðildarskorti enda hefði nýi Landsbankinn aldrei tekið neinar skyldur á sig og því ekki hægt að skylda bankann til að þola breytingar á samningi sem hann var aldrei aðili að. Í þokkabót hefði samkomulagið verið efnt fyrir löngu.

„Í málinu hefur verið vísað til þess að Landsbankinn hafi borið ábyrgð á því að menn hæfu lífeyristöku samkvæmt 95 ára reglunni fyrr heldur en forsendur gerðu ráð fyrir. Ég tel að þar hafi miklu frekar verið á ferð gamli Landsbankinn sem endaði í slitameðferð og með öllu ósannað að þetta sé stefna nýja bankans,“ sagði Andri.

Þess má til gamans geta að um tíu aðilar að hlutfallsdeildinni, tæpt prósent þeirra sem eiga réttindi í sjóðnum, voru í dómsalnum og trúðu vart sínum eigin eyrum. „Sagði hann þetta? Hvílíkt og annað eins rugl“ mátti heyra einn hvísla að sessunaut sínum.

Samningsfrelsið markleysa?

Hallmundur Albertsson, lögmaður RB, benti á að hann teldi óskiljanlegt hvernig túlka mætti orðalagið aðilar „féllu frá öllum málarekstri, allri aðild og frekari kröfum sem tengjast forsendum og uppgjöri samkomulagsins“ á þann veg að viðbótarsamkomulagið 2006 tæki aðeins til launahlutans. Kröfurnar, klæddar í búning breytinga á samningi, væru til viðbótar löngu fyrndar.

„Það má velta því fyrir sér að á árinu 1997 var gerður samningur og hann efndur. Gengur upp að gera viðbót við hann níu árum síðar og koma síðan aftur árið 2018 og vilja láta dómstóla breyta skilmálum samningsins? Til hvers eru menn þá að gera samninga? Er samningsfrelsið þá ekki orðið markleysa?“ spurði Hallmundur.

Meginmarkmið samningsins 1997 hefði verið að fella bakábyrgðina brott en dómkrafan nú hljóði upp á að henni verði bætt inn aftur. Slíkt gangi augljóslega ekki. Því til viðbótar hefði RB aldrei verið aðili að upphaflegum samningi og það gengi ekki upp að dæma félagið til aðildar að honum.

„Stjórn sjóðsins naut aðstoðar tryggingastærðfræðings við gerð samkomulagsins og forsendurnar byggðu á mati hans. Það var því sérþekking þar til staðar og allt tal um aðstöðumun gengur ekki upp,“ sagði Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður Valitor, í ræðu sinni. Markmiðið með samningnum hefði verið að færa áhættu frá Landsbankanum og ríkinu yfir á sjóðinn og forsendur hefðu allt eins getað þróast í aðra átt þannig að aðildarfyrirtækin hefðu greitt meira en til þurfti. Ekki gengi upp að krefjast breytinga nú þegar reyndin varð þessi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .