Hugsanlegt er að ótímabundið hlé Seðlabankans á vikulegum gjaldeyriskaupum sem tilkynnt var um í síðustu viku gefi tóninn fyrir árstíðabundna sveiflu þar sem bankinn verði stórtækari í kaupum yfir sumartímann þegar gjaldeyrisinnflæði er hvað mest en stöðvi kaupin, eða verði jafnvel seljandi á gjaldeyri, þegar krónan á erfitt uppdráttar í svartasta skammdeginu. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunpunktum greiningardeildarinnar er m.a. rifjað upp að gjaldeyriskaup bankans höfðu fram að því þegar tilkynnt var um hléð numið þremur milljónum evra í viku hverri frá því að þau voru tvöfölduð í fyrrasumar. Greining Íslandsbanka segir hins vegar að Seðlabankinn hafi misst af góðu tækifæri til að draga úr sveiflum krónunnar í sumar, þegar krónan styrkist tímabundið hratt í seinni hluta júlímánaðar án þess að bankinn hefðist að, en veiktist svo jafnharðan frá seinni hluta ágústmánaðar til októberloka.

Í Morgunkorninu segir:

„Væri slík árstíðasveifla í gjaldeyrisviðskiptum Seðlabanka á markaði  í takti við þær hugmyndir sem forsvarsmenn bankans hafa viðrað um peningamálastjórnun eftir afléttingu hafta, þar sem hugmyndin er að floti krónunnar verði stýrt að hluta með aðgerðum á markaði í því skyni að draga úr sveiflum. Seðlabankinn hefur þó verið tregur til að viðurkenna að árstíðasveifla sé í gengi krónunnar þessi misserin, en við teljum ljóst að slík sveifla sé til staðar, þótt aðrir áhrifaþættir á gjaldeyrismarkaði geri hana óreglulega frá einum tíma til annars. Árstíðarsveiflan byggir á því hversu grunnur gjaldeyrismarkaðurinn er vegna haftanna, en ef gjaldeyrismarkaður dýpkar að nýju í kjölfar afléttingar hafta má reikna með að þessi sveifla muni minka eða hverfa alveg.“