Varla þarf að fjölyrða um þá gífurlegu óvissu sem nú er uppi um þróun flestra hagstærða hér á landi, og ber að taka þessari spá með þeim fyrirvara. Gengi krónunnar er þar stærst meðal óvissuþátta segir í Morgunkorni Glitnis.

Greining Glitnis gerir nú ráð fyrir veikari krónu framan af spátímabilinu en í síðustu spá, og að hún fari ekki að styrkjast að ráði fyrr en að áliðnu næsta hausti. Ómögulegt er þessa dagana að segja til um hvert fyrirkomulag peningamála og umgjörð gjaldeyrismarkaðar verður þegar frá líður, en breytingar á þeim grunnforsendum hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á hver gengisþróun verður næstu misseri.

"Með hliðsjón af því hversu raungengi krónu er lágt um þessar mundir eru þó mestar líkur á að gengisáhrif verði fremur til að draga úr verðbólgu en að bæta í hana þegar líður á spátímabilið. Af áhrifum krónu slepptum er harla fátt sem getur aukið við verðbólguþrýsting eftir því sem hinn þungi hrammur kreppunnar leggst með meiri þunga á landsmenn, enda hefur hrávöruverð lækkað, innlendur húsnæðismarkaður er nánast frosinn og djúpt samdráttarskeið hafið í íslensku hagkerfi," segir í Morgunkorninu.