Gengi krónunnar hefur veikst um 3,2 gagnvart evru og bresku pundi og 3,5% gagnvart Bandaríkjadal síðustu tvær vikurnar og lítur út fyrir að gengið verði veikara við lok þriðja ársfjórðungs en við upphaf hans. Greining Íslandsbanka telur ástæðuna árstíðabundna sveiflu auk þess sem líklegt er að fyrirtæki og opinberir aðilar séu í auknum mæli að taka mið af sveiflunni og spari gjaldeyri vegna stóra gjalddaga á erlendum lánum í vetur. Af þeim sökum telur hún að gengið gefi frekar eftir fram á næsta vor.

Greiningin bendir á það í Morgunkorni sínu að í nýlegu riti Seðlabankans koi fram að áætlaðar afborganir erlendra lána annarra en ríkissjóðs munu nema um 93 milljörðum króna á næsta ári. Það er svipuð upphæð og á þessu ári. Þar af nema afborganir fyrirtækja sveitarfélaga tæpum 25 milljörðum króna á næsta ári á móti 13 milljörðum í ár. Bent er á að yfir 80% lána Orkuveitunnar eru í erlendri mynt en um 25% í erlendum gjaldeyri. Ofan á það bætast afborganir sveitarfélaga af gjaldeyrislánum upp á 13 milljarða króna á næsta ári á móti 11 milljörðum í ár.