Launakjör bankastjóra Landsbankans hafa verið mjög til umræðu. Í skýrslu stjórnar kemur fram að 48 milljónir hafi verið lagðar til hliðar vegna mögulegra leiðréttinga á launakjörum hans. Viðskiptablaðið spurði Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, hvar málið standi nú

„Ég lít svo á að það sé bankaráðs Landsbankans að fjalla um þetta mál. Bankaráði finnst eðlilegt að það stýri rekstrarlegum málum bankans en ekki einhver annar," segir Steinþór og vísar til þess að í dag ákvarðar Kjararáð laun bankastjóra Landsbankans.

Er enn með lægri laun en forsætisráðherra

Í skýrslu bankaráðs í nýbirtum ársreikningi eru færð rök fyrir því sjónarmiði að bankaráð skuli ákvarða laun bankastjóra. Í lögfræðiálitum vegna málsins hefur bankaráðið bent á að í eigendastefnu ríkisins um eignarhald á fjármálafyrirtækjum sé kveðið á um að bankar skuli borga samkeppnishæf laun án þess að vera leiðandi á markaðinum. Færsla upp á 48 milljónir byggir á því að bankaráðið metur laun Steinþórs ekki samanburðarhæf við aðra stjórnendur íslenskra banka. Ráðið telur að með því að svipta það umboði til að semja um kaup og kjör við æðsta stjórnenda bankans sé verið að brjóta gegn stjórnarskrá og mögulega brjóti slíkt einnig í bága við EES-samninginn. Enn fremur bendir ráðið á að upphaflega hafi verið sagt að þetta fyrirkomulag, þar sem daglaun bankastjóra yrðu ekki hærri en laun forsætisráðherra, myndi standa til loka árs 2010. Fyrirkomulagið er þó enn með þessum hætti.

Spurður nánar hvað honum finnist um launakjörin, burt séð frá því hvernig bankaráð hefur beitt sér, segist Steinþór treysta því að þessi mál komist í eðlilegt horf áður en langt um líður. „Það er eðlilegt að minn viðsemjandi séu mínir yfirmenn eins og hjá öðrum.“

Ítarlegt viðtalið við Steinþór var í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Sá hluti sem birtist hér að ofan var ekki í blaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.