Ríkisstjórnin tilkynnti um ýmsar mótvægisaðgerðir samhliða ákvörðun um aðeins 130 þúsund tonna þorskafla á næsta fiskveiðiári. Samtök atvinnulífsins telja hins vegar að mikilvægasta mótvægisaðgerðin fyrir sjávarútveginn og landsbyggðina værir lægra gengi krónunnar.

Í grein á vef SA segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA að að nú séu skýrar efnahagslegar forsendur fyrir því að Seðlabankinn lækki vexti og hætti stuðningi sínum við alltof hátt gengi krónunnar. Hann segir að Seðlabankinn verði að losna úr sjálfheldu vaxtastefnu sinnar. Það fái engan veginn staðist að gengi krónunnar skuli hækka þegar helsta útflutningsgreinin verði fyrir öðrum eins hremmingum og sjávarútvegurinn nú. Með vaxtastefnunni sé unnið gegn krónunni sem sjálfstæðum gjaldmiðli.