Allar líkur eru á að afgangur af vöruskiptum verði verulegur á yfirstandandi ári. Innflutningur hefur dregist mikið saman í vöruflokkum sem tengjast innlendri eftirspurn. Má þar nefna fólksbifreiðar, varanlegar neysluvörur á borð við húsgögn og heimilistæki sem og fjárfestingarvörur eins og bent er á í Morgunkorni Glitnis.

Þar er bent á að lækkun eldsneytis- og hrávöruverðs hefur líka sitt að segja um að innflutningsverðmæti verður minna á þessu ári en verið hefur undanfarin misseri, ef leiðrétt er fyrir gengisbreytingum. Á sama tíma hefur útflutningur á áli aukist mikið og aflaheimildir í þorski verið auknar, þótt þar vegi raunar á móti að verð þessara afurða hefur lækkað á heimsmarkaði.

Þá gerir afar lágt raungengi krónu öðrum útflutningsgreinum sem ekki búa við skorður í framleiðslugetu auðveldara fyrir í samkeppni við erlenda keppinauta. Seðlabankinn spáir því í nýútkominni þjóðhagsspá að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum verði tæplega 10% af landsframleiðslu á þessu ári og eru okkar væntingar til utanríkisviðskipta í samræmi við það