IFS Greining fjallar um ákvörðun peningastefnunefndar í gær að lækka stýrivexti um 25 punkta í 3%. Rökstuðningi bankans er gerð skil í umfjölluninni og farið er yfir helstu breytingar í nýrri hagspá miðað við síðustu spá bankans frá því í sumar.

Þá er staldraða við fyrirvara sem settur er fram í yfirlýsingu nefndarinnar. „Mikil áherla kom fram um óvissu á alþjóðamörkuðum og raungerast neikvæðari sviðsmyndir má reikna með að fyrirliggjandi efnahagsspá sé of bjartsýn,“ segir IFS Greining.

Vísar Greiningin til rammgreinar í Peningamálum, sem kom út í gær, um hagfræðinginn Knut Wicksell og hugtakið jafnvægisraunvextir. „Þetta eru sem sagt þeir vextir sem tryggja verðstöðugleika samhliða fullri nýtingu framleiðsluþátta – að teknu tilliti til aðlögunartíma (=miðlunarferli peningastefnunnar tekur tíma). Hlutverk peningastefnunnar er að tryggja þetta samræmi og er því í eðli sínu framsýnt enda eru jafnvægisraunvextir á sérhverjum tíma ekki þekkt stærð.“

Svör bankastjórans og aðalhagfræðings bankans við því hvort nafnvextir bankans væru komnir á þann stað sem tryggja myndi ofannefnt, sló greinendur IFS. „ Annar – bankastjórinn – tiltók óvissu í núverandi hagspá með áherslu á neikvæðari sviðsmyndir á meðan hinn – aðalhagfræðingurinn – tiltók að núverandi stýrivextir væru 1-1,5 prósentustigum lægri en fyrirliggjandi mat bankans á jafnvægisraunstýrivextum væri.

Hugsanlega erum við að lesa of mikið í þessi svör bankamannanna en okkar sýn fellur ágætlega með þeim fyrri og teljum við því all nokkrar líkur á enn frekari vaxtalækkunum – jafnvel þegar í desember,“ segir í umfjöllun IFS Greiningar.