BHM telur lögbann á verkfall félagsmanna þess brjóta gegn stjórnarskrá Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu og ýmsum alþjóðlegum samþykktum. Stefna félagsins á hendur íslenska ríkinu verður þingfest klukkan 3 í dag.

Í tilkynningu frá BHM segir að stjórnvaldið sem sett hefur lögin sé einnig annar samningsaðilinn í kjaradeilunni. BHM telur að lagasetningin sé reist á ómálefnalegum sjónarmiðum, hún sé brot á jafnræðisreglu og reglunni um stjórnskipulegt meðalhóf.

Nauðsynlegustu þjónustu sinnt

BHM bendir á að gerðardómi sé gert að taka mið af kjarasamningum sem gerðir hafa verið eftir 1. maí. "Þetta þýðir að gerðardómurinn eigi að ákvarða starfskjör félagsmanna á grundvelli kjarasamninga hópa sem eru í grundvallaratriðum mótaðir á ósambærilegan hátt við það sem tíðkast um ríkisstarfsmenn.

Í öðru lagi  vekur sérstaka eftirtekt að gerðardómi er ekki ætlað að miða við kjarasamninga sem hafa verið undirritaðir fyrir 1. maí sl. Augljóst er að með því er ríkið að tryggja að ekki eigi að taka mið af samningum ríkisins við aðra hópa ríkisstarfsmanna, t.d. um lækna og framhaldsskólakennara. En kjarasamningar þessara stétta eru sambærilegir við samninga  aðildarfélaga BHM," segir í tilkynningunni.

Þá telur BHM fjarri að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi ekki verið sinnt á meðan á verkfalli aðildarfélaga þess stóð. Heimild til verkfalls nái ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu, enda sé þeim starfsmönnum óheimilt að leggja niður störf í verkföllum.