Lýstar kröfur í persónulegt þrotabú Magnúsar Jónatanssonar nema nálægt 400 milljónum króna. Þær eru 19 talsins frá ýmsum kröfuhöfum, þar á meðal Íslandsbanka og Byr. Magnús var stórtækur í fasteignaviðskiptum fyrir hrun bankakerfisins og var á meðal þeirra sem fengu mest lánað hjá Byr. DV  hafði upp úr lánabók Byrs að lán til Magnúsar og félaga honum tengdum hafi numið nærri 1,9 milljörðum króna í nóvember árið 2008. Magnús var lýstur gjaldþrota í janúar á þessu ári.

Á meðal viðskipta Magnúsar voru kaup félags hans á tugum fasteigna í Örfirisey í lok árs 2006 og byrjun árs 2007. Með honum í verkefninu voru Sparisjóðabankinn og fleiri.

Flosi Hrafn Sigurðsson, skiptastjóri þrotabúsins, segir ekki endanlega mynd komna á stöðu þrotabúsins og vísar til þess í samtali við vb.is að nokkur mál tengd því séu rekin fyrir dómsstólum þar sem tekist er á um ágreiningsmál og riftanir. Á meðal þeirra mála sem deilt er fyrir dómi er tengt leigu Magnúsar á sumarbústaðalóðum í Hrunamannahreppi.

Flosi hefur boðað kröfuhafa til skiptafundar 18. desember næstkomandi og mun hann þar gera grein fyrir stöðu þrotabúsins.