Hávær orðrómur hefur verið í dag um að gjaldeyris- og hlutabréfamiðlarinn Alessio Rastani sé ekki sá sem hann segist vera. Rastani var í viðtali við breska ríkisútvarpið í gær, BBC. Þar sagði hann að hlutabréfamarkaðurinn á evrusvæðinu og evran myndu hrynja. Ennfremur sagði hann að ríkisstjórnir stjórni ekki heiminum, heldur Goldman Sachs.

Robert Peston, ritstjóri viðskiptafrétta BBC, segir á Twitter síðu sinni að hann hafi rætt við Rastani í dag. Að hans mati er ekki um hrekk að ræða, Rastani virðist raunverulega sjálfstæður miðlari.

Þá birtir blaðamaður Forbes langt símaviðtal við Rastani. Þar segir Rastani að orð hans hafi verið oftúlkuð. Hann hélt raunar að það væri fátt nýtt í því að stórar bankastofnanir ráði meiru en stjórnvöld.

Viðtalið við Rastani vakti gríðarlega athygli og telja margir að Rastani tengist pólitískum hóp sem kallast Yes Men. Hópurinn hefur það að markmiði að koma fram undir fölskum formerkjum, og tala fyrir hönd stórfyrirtækja eða valdahópa. Undir fölskum formerkjum segja þeir síðan „sannleikann“. Já-mönnum hefur margsinnis tekist að komast í sjónvarpsviðtöl og hafa stofnað heimasíður í nafni annarra. Til að mynda lýsti talsmaður efnafyrirtækisins Dow Chemila fullri ábyrgð fyrirtækisins á dauða þúsunda á árinu 2004. Hann sagði fyrirtækið ekki ætla að bæta skaðann sem varð vegna slyssins. Fljtólega kom í ljós að talsmaðurinn var ekki frá Dow Chemical heldur meðlimur Já-hópsins.

Viðtalið við Rastani á Forbes má lesa hér .