Í greiningu IFS á virði olíufélagsins N1, sem skráð er í Kauphöll Nasdaq Iceland, kemur fram að félagið sé verðlagt undir raunvirði sínu á markaði. Miðað er við markgengi ríkisskuldabréfa í flokknum RIKB25 og mælir IFS því með kaupum á bréfum félagsins.

Markaðsgengi N1 er 56,3 krónur á hlut eins og stendur, en greining IFS metur raunvirði bréfanna sem 58 krónur á hlut. Gengi bréfanna eftir 12 mánuði samkvæmt spám IFS verður þá 65,3 krónur á hlut, sem er um það bil 19% ársbreyting.

Að sögn IFS var arðsemi félagsins á síðasta ársfjórðungi yfir væntingum þrátt fyrir að sala væri að einhverju leyti undir væntingum. Spár greiningardeildarinnar gera ráð fyrir að EBITDA N1 á árinu verði um 3 milljarðar króna og hagnaður um 1,9 milljarðar.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um nú á dögunum birti N1 ársuppgjör sitt fyrir árið 2015, en félagið hagnaðist um 1,8 milljarð króna á tímabilinu. Lesa má nánar um uppgjörið hér.