*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 18. október 2014 12:50

Neysla á íslensku lambakjöti mögulega banvæn

Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur látið innkalla 12,5 tonn af Íslensku lambakjöti og setur í mesta hættuflokk.

Jóhannes Stefánsson

Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur látið innkalla 12,5 tonn af innfluttu, hráu Íslensku lambakjöti og setur í hæsta hættuflokk. Þetta kemur fram í innköllun á vef ráðuneytisins.

Innkallanir eru flokkaðar eftir því hversu hættulegar umræddar vörur eru taldar vera. Í 3. flokki eru vörur sem eru ekki taldar valda heilsutjóni við neyslu. Í 2. flokki eru vörur sem eru taldar hafa litla hættu á neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum við neyslu. Í 1. flokki eru vörur þar sem taldar eru raunhæfar líkur á alvarlegu heilsutjóni eða dauða við neyslu, og er innköllunin á íslenska lambakjötinu flokkuð í þennan flokk.

Búið að borða kjötið

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, telur að með innkölluninni sé heldur seint í rassinn gripið því líklegt sé að búið sé að neyta svo til alls kjötsins. Hann býst ekki við því að neinn muni hljóta skaða af, enda fullkomlega ástæðulaust að telja svo mikla hættu á ferðum og bandarísk stjórnvöld geri. „Þetta er dæmigert amerískt," segir Þórarinn.

Ástæða innkalaninnar eru að upplýsingar skorti við innflutninginn vegna mistaka í skriffinsku. Lambakjötið var selt í verslunum Whole Foods í Washington og Oregon. „Það er nákvæmlega ekkert að vörunni en við þurfum að fylgja reglunum," segir Blair Gordon, eigandi E&B sem annast innflutning á íslensku lambakjöti til Bandaríkjanna.

Stikkorð: Lambakjöt