Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur að verslunarkeðjan H&M hafi að hluta til ákveðið að opna loks búðir á Íslandi vegna niðurfellingar tolla á fötum og skóm sem tók gildi um síðustu áramót. RÚV greinir frá.

Fréttir þess efnis að H&M hyggðist opna verslanir í Smáralind, Hafnartorgi og mögulega Kringlunni vöktu mikla athygli í gær, enda hefur búðin verið ein sú vinsælasta meðal Íslendinga þrátt fyrir að hafa aldrei verið hér á landi. Eru verslanir H&M gjarna með ódýrari fataverslunum víða um heim.

„Tollaniðurfellingin hefur spilað einhverja rullu, ég dreg það ekki í efa,“ var haft eftir Andrési á vef RÚV.

„H&M hefur verið með ótrúlega markaðshlutdeild á Íslandi þrátt fyrir að vera ekki með verslun hérna. Það sem gerist með því að fella niður tolla er að verslun á Íslandi verður samkeppnishæfari.“