Í Hálffimm fréttum greiningardeildar KB banka er bent á að þær fréttir sem borist hafa frá Actavis að undanförnu bendi til þess að nokkurs kunni að vera að bíða þangað til af skráningu félagsins í London verður. "Í fyrsta lagi að framkvæmdastjóri fjármálasviðs félagsins skuli hafa látið af störfum og enn sé nýs framkvæmdastjóra fjármálasviðs leitað. Í öðru lagi tillaga fráfarandi stjórnar um nýja stjórn félagsins, en enginn þeirra stjórnarmanna er óháður í skilningi leiðbeinandi tilmæla sem útbúin voru af lögmannastofunni RSM Robson Rhodes fyrir Kauphöllina í London og allir eru þeir íslenskir, sem er væntanlega ekki til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er bent á að í leiðbeinandi tilmælunum segir að hjá félögum í FTSE 350 vísitölunni ætti helmingur stjórnarmanna utan stjórnarformanns að vera óháðir. "Töluvert miklar breytingar munu eiga sér stað á rekstri félagsins áður en að skráningu kemur, ný stjórn og nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs þurfa að taka til starfa. Varla verður því af skráningu fyrr en í lok ársins eða á næsta ári," segir í Hálffimm fréttum.

Á fimmtudaginn verður aðalfundur Actavis Group haldinn. Greiningardeild KB banka telur að fróðlegt verði að sjá hvort einhverjar fréttir berist af fundinum um hugsanlega skráningu félagsins í London. Á aðalfundinum verður lögð fram tillaga um heimild stjórnar til útgáfu allt að 450 milljónir hluta (u.þ.b. 18 milljarðar að markaðsvirði) til að fjármagna kaup á öðrum félögum.