Verkefnisstjórn Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur gert framvinduskýrslu til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni kemur fram að verkefnisstjórnin telur að það þurfi að gera endurbætur á matsaðferðum sem beitt yrði við mat á virkjunarkostum í 2. áfanga, einkum aðferðum til að meta landslag og sjónræn áhrif framkvæmda.

Í skýrslunni kemur einnig fram að stefnt er að ítarlegra mati á náttúrufari háhitasvæða og verndargildi þess en unnt var í 1. áfanga. Ráðgert er að ljúka 2. áfanga áætlunarinnar í lok árs 2009.

Í bréfi sínu til ráðherra kemur fram að með þessari skýrslu telur núverandi verkefnisstjórn sig hafa lokið því verki sem henni var ætlað og gerir tillögu um að ný verkefnisstjórn verði skipuð hið fyrsta. Þar er lagt til að í stað tveggja starfshópa sem frumvarp til breytinga á auðlindalögum gerði ráð fyrir að störfuðu samhliða verkefnisstjórninni, verði skipuð ein stærri verkefnisstjórn sem hefði það hlutverk að ljúka 2. áfanga og gera þær tillögur um verndar- og nýtingaráætlun sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Jafnframt er bent á þörf þess að skipa faghópa til ráðgjafar og tryggja nægilegt fé til þeirra rannsókna sem ljúka þarf áður en til mats í 2. áfanga kemur.

Í verkefnahópnum sátu Guðjón Axel Guðjónsson, Ingimar Sigurðsson og Sveinbjörn Björnsson formaður.