Líklegt er að fasteignafélagið Reginn haldi fasteignakaupum áfram enda enn nokkuð í land að stærð eignasafnsins nái því viðmiðunargildi sem stjórnendur félagsins hafa horft til. Félagið keypti í byrjun mánaðar fasteignina við Austurstræti 16 sem löngum hefur verið kennt við Reykjavíkurapótek. Húsið er 2.700 fermetrar að stærð. Eignasafn Regins verður með kaupunum 187 þúsund fermetrar og nemur bókfært verð þeirra í lok júní 36 milljörðum króna. Stjórnendur horfa hins vegar til þess að það verði 300 þúsund fermetrar, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Tekið er fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka í Morgunkorni deildarinnar um Regin að kaup félagsins á VIST og Austurstræti 16 séu ekki inni í tölum um bókfært virði eigna Regins.

Greining Íslandsbanka fjallar um tilraunir stjórnenda Regins til að stækka eignasafnið, s.s. með kaupum á fasteignafélaginu Eik en Reginn gerði hluthöfum tilboð í bréf þeirra í byrjun árs. Kaupin gengu ekki eftir.