Það að einstakir áfangar í áætlun um afnám gjaldeyrishafta séu ótímasettir er jákvætt, að mati OECD sem í dag birti skýrslu um efnahagsmál á Íslandi. Mikið útflæði fjármagns gæti leitt til óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði að nýju. Í skýrslunni segir að jákvæð skref hafi verið tekin í átt að afnámi hafta, peningamálastefnan hafi verið hert, gjaldeyrisforðinn hafi stækkað, fjármál ríkisins hafi batnað, efnahagur bankanna einnig og niðurstaða í Icesave-málinu hafi dregið úr óvissu.

Að mati OECD er afnám gjaldeyrishafta stærsta verkefni stjórnvalda. Setning haftanna er sögð hafa verið nauðsynleg til að styðja við efnahagsbatann og að vaxtastig sé mun lægra en annars. Að auki hafi þau dregið úr hættu á því að það gangi á gjaldeyrisforða Seðlabankans vegna gengisveikingar.

OECD bendir skaðsemi gjaldeyrishaftanna, sem felst meðal annars í takmörkuðu aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum, auk þess sem þau eru heimilum og fyrirtækjum til trafala. Því lengur sem höftin eru við lýði, því dýrara verður að afnema þau.

Þrátt fyrir skref í rétta átt á enn eftir að fullnægja fleiri skilyrðum fyrir afnámi, segir í skýrslunni. Enn þarf að ná jafnvægi í íslenska efnahaginum og styrkja viðskiptajöfnuð, en OECD telur að slík framför færi langt með að uppfylla skilyrði sem þarf fyrir afnámi haftanna. Þá þurfa krónueignir að vera aðlaðandi fyrir fjárfesta. Verkefni stjórnvalda felst meðal annars í styrkingu regluverks og eftirlits, og þróa þarf áætlun í peningamálum sem styður við gengisstöðugleika.