Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur tekið undir bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar um fiskeldisáform Arnarlax í Jökulfjörðum og telur rétt að undanskilja Jökulfirði þegar kemur að úthlutun fiskeldisleyfa. Þetta kemur fram á vef bb.is í dag.

Bæjarráð hefur skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra að sjá til þess að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum, a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggur fyrir. Í bókun bæjarráðs frá því í síðustu viku leggst ráðið gegn því að fiskeldi verði í Jökulfjörðum og telur algerlega óhugsandi að úthluta leyfum án þess að ítarleg vinna með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum hafi farið fram.

Í bókuninni segir: „Jökulfirðirnir eru friðland okkar og djásn. Framsýni þeirra var mikil sem gerðu Hornstrandir að friðlandi árið 1975. Hornstrandir og Jökulfirðir eru í dag einstakt svæði fyrir þær sakir og er bæjarráði Ísafjarðarbæjar umhugað um að svo verði áfram.“

Hafa sótt um 10.000 tonna eldisleyfi

Fyrr í mánuðinum sendu Ferðamálasamtök Vestfjarða frá sér tilkynninu þar sem þau ítrekuðu andstöðu sína við fiskeldi í Jökulfjörðum.

Kynnt hefur verið umsókn Arnarlax um 10.000 tonna eldisleyfi í sjó á þremur stöðum í Jökulfjörðum. Annarsvegar út af ströndinni milli Grunnavíkur og Flæðareyrar og hinsvegar friðlandsmegin, út af hlíðinni milli Hesteyrafjarðar og Veiðileysufjarðar.

Í ályktun stjórnar samtakanna kom fram að 10.000 tonna framleiðsluleyfi sé jafn mikið og öll eldisleyfi sem hafa verið gefin út í öllu Ísafjarðardjúpi og sé svipuð framleiðsla og í tveimur stærstu fiskvinnslunum við Djúp.