Gengi hlutabréfa kínverska tæknifyrirtækisins Lenovo féll um 16% á markaði í Kína í nótt eftir að greinendur færðu niður verðmat sitt á fyrirtækisins. Þeir telja helst til að kaup fyrirtækisins á farsímafyrirtækinu Motorola frá Google muni hafa neikvæð áhrif á afkomu Lenovo til skemmri tíma í skugga þess að gert sé ráð fyrir taprekstri hjá Motorola á næstu þremur árum. Greinendurnir voru hjá bönkunum UBS, Morgan Stanley, Jefferies Group, JI-Asia Research og Kim Eng Securities, samkvæmt upptalningu Bloomberg-fréttaveitunnar .

Bloomberg segir Lenovo hafa farið svolítið geyst upp á síðkastið. Auk kaupa á Motorola keypti það nefnilega á dögunum framleiðslu á x86-netþjónum IBM . Lenovo greiðir 2,91 milljarða dala fyrir Motorola en 2,3 milljarða fyrir netþjóna IBM. Það gera samtals 600 milljarða íslenskra króna.

Bloomberg hefur upp úr verðmötum greinenda Lenovo að þótt kaup fyrirtækisins á Motorola geti reynst þungur baggi til skamms tíma þá séu þau nauðsynleg ætli Lenovo að ná að fóta sig í Bandaríkjunum.