Flugfélagið Play sendi inn erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem þess er krafist að ESA dragi samþykki sitt fyrir ríkisábyrgð íslenska ríkisins til handa Icelandair til baka. ESA hefur þegar brugðist við erindi Play með því að kalla eftir viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum við erindinu.

Lögfræðingurinn Haukur Logi Karlsson veitti Play ráðgjöf við gerð erindisins, en starfaði innan raða ESA um nokkurra ára skeið. „Stjórnendur Play leituðu til mín þar sem að þeir voru ósáttir með ákvörðun ESA um að heimila ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair og í kjölfarið fór ég að skoða málið," segir hann.

„Við höfum ekki ennþá fengið aðgang að öllum upplýsingum um á hvaða forsendum þessi ákvörðun ESA var byggð. En fyrir okkur virðist svo vera sem að þessi ríkisábyrgð hafi verið kynnt fyrir ESA á þeim grunni að um væri að ræða sértæka aðgerð til þess að bæta Icelandair upp tekjumissi vegna COVID-19. Það er ákveðin lagagrunnur sem heimilar veitingu slíkrar aðstoðar. En síðan þegar málið er tekið fyrir á Alþingi þá er þessi aðgerð kynnt meira sem almenn efnahagsaðgerð til þess að koma í veg fyrir almennan skaða á efnahagi Íslands," bætir hann við.

Haukur segir að um leið og þeim rökstuðningi sé beitt fyrir ríkisábyrgðinni verði lagagrunnurinn sem byggja þurfi ákvörðunina á annar. „Þá hefði þurft að byggja erindið um ríkisábyrgðina til ESA á annarri lagagrein. Innan hennar gilda strangari reglur um hve mikla aðstoð má veita og hvernig skuli veita hana." Á grundvelli þeirra upplýsinga sem komu fram í meðferð málsins fyrir Alþingi, eftir að ESA var búið að samþykkja upphaflegu tilkynninguna, hafi Play farið þess á leit við ESA að málið verði tekið aftur til skoðunar.

Líkt og fyrr segir hefur ESA þegar brugðist við erindi Play, með því að kalla eftir viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum.

„Við fengum bréf frá ESA sem staðfesti móttöku erindisins og þar kom jafnframt fram að ESA hafi kallað eftir nánari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig þau myndu bregðast við þessu erindi Play. Eftir að svör berast frá stjórnvöldum metur ESA málið og ákveður hvort málið verði opnað upp á nýtt eða að hvort ekki sé talin ástæða til þess," segir Haukur.