„Við höfum áhyggjur af því að Seðlabankinn sé of seinn að bregðast við styrkingunni,“ segir greiningardeild Arion banka. Deildin viðrar þá skoðun sína í Markaðspunktum deildarinnar í dag að 12% styrking krónu gagnvart evru hafi boðið upp á gott tækifæri til að kaupa í gjaldeyrisvaraforðann og draga úr ýktum gengissveiflum um leið. Deildin telur að annað hvort Seðlabankinn eða aðrir stórir aðilar á gjaldeyrismarkaði hljóti að sjá sér leik á borði til gjaldeyriskaupa á næstunni og hægi eða stöðvi styrkinguna.

Greiningardeildin rifjar upp að velti hún fyrir sér hugsanlegum skýringum á styrkingu krónunnar. Á meðal hugsanlegra skýringa taldi hún geta verið aukinn trúverðugleiki inngripa Seðlabankans og framvirk sala á gjaldeyri til Landsbankans, sem hvoru tveggja sköpuðu væntingar um frekari styrkingu. Þá fjölgaði ferðamönnum yfir vetrartímann auk þess sem fyrirtæki drógu úr kaupum á gjaldeyri til að standa skil á erlendum lánum. Þá benti deildin á að veiðigjald fellur á gjalddaga í þessum mánuði, svo hugsanlega hafi sjávarútvegsfyrirtæki verið að skipta gjaldeyri fyrir krónur til þess að standa skil á gjaldinu. Þá sagði greiningardeildin ljóst að bæði Íslandsbanki og Arion banki áttu verulegar eignir í gjaldeyri umfram skuldir. Því hafi ekki verið hægt að útiloka að þeir hafi einfaldlega verið að draga úr gjaldeyrismisvægi sínu á tímabilinu.

Greiningardeildin segir:

„Að okkar mati er eins konar „déjà vu“ í gangi, þar sem ástandið á gjaldeyrismarkaði minnir um margt á síðasta sumar. Þá styrktist krónan mikið yfir sumarmánuðina, en að okkar mati var Seðlabankinn of svifaseinn að grípa inn í  með auknum gjaldeyriskaupum. Hann missti þar með í senn af góðu tækifæri til að bæta í forðann og jafna þá sveiflu sem síðan varð í krónunni þegar gengið sneri og krónan veiktist mikið til áramóta. Fyrir utan þau vandræði sem mikil og ófyrirsjáanleg gengissveifla veldur við alla áætlanagerð og viðskipti í hagkerfinu er ekki síst mikilvægt að koma í veg fyrir að slík þróun endurtaki sig þar sem flest bendir til þess að gengisleki krónunnar sé ósamhverfur.“