Seðlabanki Íslands segir í nýrri skýrslu að aðild að myntbandalagi kallar á breytingar á ákvörðunum launa hér á landi. Þessu eru forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins ósammála og telja bankann vanmeta sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í skýrslunni kemur fram að sveigjanleiki á íslenskum vinnumarkaði sé nokkur og að raunlaun hafi í gegnum tíðina verið sveigjanlegri hér en víða annars staðar. Bankinn telur þetta stafa af gengisbreytingu og verðbólgu. Nafnlaun sé aftur á móti erfitt að færa niður og því gæti orðið erfitt að aðlaga þjóðarbúskapinn eftir stór efnahagsáföll ef Ísland gengur í myntbandalag.

Samkvæmt fréttinni telja bæði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að Seðlabankinn vanmeti sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar. „Ég held að íslenskur vinnumarkaður geti að óbreyttu mætt þeim áskorunum sem fast gengi felur í sér. Ég minni á að við fórum í gegnum mikla aðlögun á árunum 1992 til 1994 án þess að miklar breytingar hafi orðið á gengi krónunnar,“ segir Gylfi.

Vilhjálmur er á svipuðum nótum og bendir á að eftir hrunið hafi laun beinlínis lækkað í fjölmörgum fyrirtækum. „Ég held að það hafi sýnt sig að sveigjanleiki nafnlauna og vinnutíma er mikill. Ég held því að Seðlabankinn vanmeti sveigjanleikann,“ segir Vilhjálmur