ISAVIA, sem rekur Keflavíkurflugvöll, telur sig ekki hafa valdheimildir til að grípa til þeirra ráðstafana sem Samkeppniseftirlitið vill að gripið verði til. Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í dag að ISAVIA bæri að tryggja WOW air aðgang að samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutímum fyrir flugvélar á flugvellinum. Úthlutunarfyrirkomulag Isavia hafi takmarkað mjög möguleika annarra flugfélaga til þess að keppa við Icelandair og þannig skaðað samkeppni.

„Ekki hefur gefist tími til þess að rýna úrskurðinn í heild en samantekt á niðurstöðum benda til þess að félaginu sé ætlað að grípa til ráðstafana sem það telur sig ekki hafa valdheimildir til. Isavia er ekki úthlutunaraðili afgreiðslutíma áætlunarflugvéla á Keflavíkurflugvelli heldur fer úthlutunin fram í samræmi við reglur evrópska efnahagssvæðisins sem teknar voru upp hér á landi árið 2006. Úthlutunin er framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og telur Isavia óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krefst. Mun Isavia væntanlega áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins,‟ segir í tilkynningu frá ISAVIA.

Þá segir að samræming afgreiðslutíma miði að því að tryggja stundvísi og hindra tafir við afgreiðslu og taki bæði til flugvalla sem flogið er til og frá hverju sinni.