Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir segir að hópurinn sem hann fari fyrir og vilji gera tilboð í Morgunblaðið telji að hann geti rekið blaðið með örlitlum hagnaði.

„Fjölmiðlar á liðnum árum hafa ekki gert það. Það er óeðlilegt ástand og hættulegt lýðræðinu," sagði hann í samtali við Kastljós í kvöld.

Hann sagði að þær viðskiptablokkir sem komið hefðu að rekstri fjölmiðla hljóti að hafa haft annarleg sjónarmið í huga. Það gangi ekki að reka fjölmiðla með allt að átta hundruð milljóna króna tapi á ári.

„Það eru brengluð sjónarmið þar að baki," sagði hann.

Vilhjálmur sagði útilokað annað en að Fréttablaðið væri rekið með verulegum halla. Þá sagðist hann gruna að 24 stundir og forveri þess Blaðið hefðu verið rekin með fimmtán hundruð milljóna króna halla á líftíma þeirra.

Hann sagðist ekki trúa öðru en að aðrir fjölmiðlar hættu þessu rugli, eins og hann orðaði það.

Sá hópur sem hann færi fyrir vildi gera betur. Tilgangurinn væri að kaupa Morgunblaðið til að halda úti lýðræðislegri umræðu. Reksturinn yrði sniðinn eftir vexti.

Rekstur Morgunblaðsins hefði farið úr böndunum eftir að viðskiptamógúlar komu að rekstri þess.