Að sögn Úlfars Steindórssonar, framkvæmdastjóra Toyota á Íslandi, hefur félagið átt fundi með fulltrúum Toyota Europe og fengið fullvissu um stuðning frá þeim á meðan sá sölusamdráttur sem nú ríkir á Íslandi gengur yfir. Fulltrúar Toyota í Evrópu komu hingað til lands í lok októbermánaðar og síðan hafa verið sögusagnir um innkomu þeirra í rekstur Toyota á Íslandi.

Úlfar sagðist að tilefni komu fulltrúa Toyota Europe hafi meðal annars verið erlendar fréttamyndir sem sýndu tómar búðir hér á landi. Hefði meðal annars verið farin ferð í Kringluna með hópinn til að sýna þeim ástandið eins og það væri.

Úlfar sagðist kannast við sögusagnir um að Toyota Europe væri að koma inn í félagið í framhaldi þessarar heimsóknar. ,,Þeir hafa lýst því yfir að þeir muni standa með okkur og fara í gegnum þetta eins og alltaf. Toyota hefur alltaf staðið mjög vel við bakið á Toyota innflutningsaðilum í þeim löndum sem þeir eru. Hvort sem þeir hafa átt þá sjálfir eða ekki. Ef bílaframleiðslufyrirtækin eru skoðuð sést að ekkert stendur eins vel og Toyota.”

- En þeir eru ekki að koma inn í eignarhaldið til að tryggja hagsmuni sína?

,,Nei, enda er engin þörf á því. Vissulega eru þetta þungir mánuðir en við erum líka að koma út úr fjórum bestu bílaárum í sögunni. Auðvitað erum við að takast á við þetta eins og hvert annað verkefni og höfum verið að draga úr kostnaði. Við sömdum við starfsfólkið okkar um lækkun á starfshlutfalli og lækkuðum laun þeirra sem eru á föstum launum. Við erum bara að takast á við þetta eins og allt og horfum á þetta sem langtímamál. Eins og ég segir erum við að koma út úr fjórum frábærum árum og þetta ár  var í fínu standi í upphaf.”

Úlfar sagði að það dyldist engum að næsta ár yrði erfitt en svo væri reiknað með því að 2010 sjái menn að þetta fari að síga uppávið þó engin eigi von á stórum stökkum. Úlfar sagði að mjög erfitt væri að setja saman áætlanir um sölu næsta árs og þær væru mjög á reiki. ,,Á meðan við sjáum ekki hvar gengisvístalan stillir sig af, sem hún gerir á endanum er ómögulegt að átta sig á því hvar þetta lendir. Ef við skoðum söguna þá hafa þessi minnstu bílaár farið niður í 5.000 bíla. Auðvitað er alltaf einhver endurnýjunarþörf og svo er spurning að ef ferðaþjónustan mun halda áfram að vaxa og dafna að bílaleigurnar sjá góð ár. En á meðan við áttum okkur ekki á hvar gengið verður er erfitt að gefa út einhverjar tölur.”