Forstöðumenn ríkisstofnana hafa ekki fylgt ráðuneytis- og skrifstofustjórum ráðuneyta í launakjörum undanfarinn áratug og þyrftu meðallaun þeirra að hækka um 4-5% til að rétta hlut þeirra. Því til viðbótar hafa þeir búið við minna starfsöryggi en samanburðarhópurinn þar sem störf þeirra eru oftar auglýst heldur en hin. Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu um starfskjör forstöðumanna sem Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun vann fyrir Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR).

Sem kunnugt er voru ákvarðanir um kaup og kjör æðstu starfa hins opinbera áður undir valdsviði kjararáðs en það var lagt niður með lögum sem tóku gildi mitt ár 2018. Samkvæmt nýju fyrirkomulagi þá eru laun þjóðkjörinna fulltrúa, dómara, saksóknara og nokkurra embætta til viðbótar ákveðin með fastákveðinni tölu í lögum. Félagsmenn í FFR færðust aftur á móti undir skrifstofu kjara- og mannauðs (KMR) í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en önnur störf fengu almennt samningsrétt.

Umrædd úttekt var unnin að beiðni FFR með það að marki að geta borið saman starfskjör, það er launakjör og starfsöryggi, félagsmanna FFR annars vegar og ráðuneytis- og skrifstofustjóra hins vegar meðal annars með tilliti til ábyrgðar í starfi. Niðurstaðan er sú að launa- og kaupmáttarþróun hópanna þriggja er afar sambærileg til ársins 2017 en eftir það skilji á milli. Er það niðurstaða Benedikts að laun forstöðumanna þyrftu að hækka um 4,7% að meðaltali til að halda í við launavísitölu. Þá þyrfti meðaltalshækkun að vera 11,8% til að ná sömu kaupmáttaraukningu og skrifstofustjórar en 6,2% til að ná ráðuneytisstjórum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .