*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 20. október 2019 16:05

Telja sig svikna af FlyOver Iceland

Hollenskur hluthafi í móðurfélagi FlyOver Iceland, hefur stefnt félaginu og telur sig eiga rétt á hlutdeild í afkomu sýningarinnar.

Ingvar Haraldsson
FlyOver Iceland opnaði í september.
Aðsend mynd

Hollenskur hluthafi í Esju Attractions, móðurfélagi FlyOver Iceland,  hefur stefnt félaginu þar sem ekki hafi verið staðið við gerðan samning.

Hollenska félagið, sem ber nafnið This is City Attractions, gerði samstarfssamning við Esju um að aðstoða við uppbyggingu FlyOver Iceland. Í samningnum fólst meðal annars að ef öll skilyrði yrðu uppfyllt, m.a. um árangur af framvindu verkefnisins, fengi This is City hlutdeild í afkomu FlyOver Iceland auk greiðslu fyrir veitta aðstoð. Esja telur ákvæði um árangur af framvindu verksins ekki hafa gengið eftir og því hafi samningurinn runnið út. This is City á um 2% hlut í Esju.

FlyOver Iceland opnaði í september síðastliðnum við Fiskislóð á Granda í Reykjavík. Þar er gestum boðið í sýndarflugferð yfir náttúru Íslands. Sérsmíðuð sæti hreyfast til meðan á sýningunni stendur sem eiga að veita áhorfandanum þá tilfinningu að hann sé á flugi. Þá geta gestir einnig heimsótt  tvær minni margmiðlunarsýningar í húsinu um íslenska sögu og menningu.

This is City rekur sambærilega sýningu og FlyOver Iceland í Amsterdam í Hollandi sem gengur undir nafninu This is Holland. Sú sýning var opnuð árið 2017. Þar er gestum boðið í sýndarveruleikaflug um hollenskar sveitir og bæi.

Samningurinn hafi runnið út

Gunnar Jónsson, lögmaður Esju Attractions, segir This is City hafa gert samstarfssamning við Esju í febrúar 2017 um aðstoð við að koma sýningunni á fót. Samningurinn hafi verið til níu mánaða en myndi framlengjast um tvö ár að því gefnu að ákveðinn árangur myndi nást. Það hafi ekki gengið eftir og því telji Esja að samningurinn hafi runnið út.

„Esja, móðurfélag FlyOver, telur það tiltölulega augljóst að sá árangur hafi ekki náðst. Það er meðal annars kveðið á um það í berum orðum að búið eigi að vera að fjármagna félagið að fullu, bæði eiginfjárfjármögnun og lánsfjármögnun. Það var ekki búið á þessum tíma. Það er bara staðreynd sem er mjög auðvelt að sýna fram á. Samningum við Arion banka um fjármögnun félagsins var lokið snemma á þessu ári.“

Því hafi liðið meira en ár frá því að upphaflegur samningur við This is City rann út þar til fjármögnun var lokið og þar með líti Esja svo á að samstarfinu hafi verið lokið.

Öllum frjálst að höfða dómsmál

Við þetta vill This is City ekki sætta sig við. „Þeir fóru með þann ágreining fyrir dómstóla. Það er réttur hvers manns eða félags að biðja dómstóla að hlusta á umkvörtunarefni sem þau kunna að hafa og kveða upp úr um þau. En Esja telur sig vera algjörlega í rétti og samningurinn hafi runnið út samkvæmt efni sínu,“ segir Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér