Mun fleiri telja sjálfan sig fara eftir viðmiðunum fjarlægðartakmarkana en aðra, þó síðari talan hafi batnað mikið í síðustu viku eftir að reglurnar voru hertar vegna aukinna kórónuveirusmita í samfélaginu. Áður en reglurnar voru hertar var minnihlutinn með á hreinu hvernig þeim var háttað þá, en eftir að þær voru hertar var vitneskjan nær 98%.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, en þar kemur fram að í vikunni áður en reglurnar voru hertar sagði innan við þriðjungur landsmanna, að í aðstæðum þar sem það ætti við fyndist honum almenningur fara oftast eða alltaf eftir viðmiðum yfirvalda um fjarlægðartakmarkanir milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum.

Þá kom fram að nær 28% fannst almenningur sjaldan eða aldrei fara eftir viðmiðunum. Í síðustu viku fannst hins vegar nær 42% almenningur oftast eða alltaf fara eftir viðmiðunum en nær 17% sjaldan eða aldrei.

Telja sjálfa sig betri en aðra

Hins vegar þegar fólk svaraði um sjálft sig var annað uppi á teningnum, því þar var bæði enginn munur á milli vikna, og að 86% telja sig oftast eða alltaf fara eftir viðmiðum um fjarlægðartakmarkanir þegar það á við, og þar af telur hátt í fjórðungur sig alltaf fara eftir þeim. Innan við 3% telja sig sjaldan eða aldrei fara eftir þeim.

Hugsanleg skýring á þessu misræmi er sögð í umfjöllun Gallup um málið er sú að fólk taki meira eftir þeim sem fara ekki eftir viðmiðunum en hinum sem gera það, en ekki er útilokað að við tökum ekki alltaf eftir því þegar við förum ekki eftir þeim sjálf.

Vitneskjan batnaði með hertum reglum

Í þjóðarpúlsinum nú var einnig spurt hvort fólk vissi hvaða reglur væru í gildi, en áður en reglurnar voru hertar miðuðu fjöldatakmarkanir við 200 manns, en þá voru einungis 39% aðspurðra með það á hreinu, en fjórðungur til viðbótar taldi svo vera. Hins vegar töldu næstum 36% eða þóttust vita að viðmiðið væri 100 manns.

Mikil breyting varð á vitneskju landsmanna eftir að reglurnar voru hertar og viðmiðið lækkað í 20 manns (með ákveðnum undanþágum), en eftir það vissu eða töldu nær 98% landsmanna að viðmiðið væri 20 manns þegar þeir voru spurðir hvort þeir teldu að miðað væri við 20, 100 eða 200 manns.

Vitneskjan var þó almennari um fjarlægðartakmarkanir, en tveir af hverjum þremur vissu að mörkin miðuðust við 1 metra, og alls rúmlega 8 af hverjum 10 vissu eða héldu að svo væri. Um fimmtungur taldi hins vegar reglurnar enn miða við 2 metra.

Eftir að fjarlægðarreglurnar voru hertar á ný í 2 metra í byrjun október á höfuðborgarsvæðinu jókst vitneskjan einnig um það, og vissu, eða töldu, rúmlega 9 af hverjum 10 höfuðborgarbúum, sig vita að viðmiðið væri 2 metrar.

Höfuðborgarbúar vita minna um reglur utan svæðis en öfugt

Þekking þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins á reglum innan þess er aðeins minni, þar sem nær tveir af hverjum tíu þeirra telja viðmiðið á höfuðborgarsvæðinu vera 1 metra.

Þekking á viðmiðum utan höfuðborgarsvæðisins virðist hins vegar vera á reiki. Aðeins rúmlega 35% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins vita að þar er 1 metra viðmið og ríflega fjórðungur til viðbótar telur að það sé þannig.

Nær fjórir af hverjum tíu sem búa utan höfuðborgarsvæðisins telja hins vegar að um þá gildi 2 metra viðmið, og þar af segist ríflega fjórðungur vita að það sé þannig. Þekking höfuðborgarbúa á viðmiðum utan höfuðborgarsvæðisins er enn minni, en meira en helmingur þeirra telur að viðmiðið þar sé 2 metrar.