Erfitt er að meta bein verðlagsáhrif af skattabreytingum. Greiningardeild Arion banka telur að nokkrir þættir geti rökstutt að verðlagsáhrifin verði meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í vikunni. Í Markaðspunktum deildarinnar segir að í fyrsta lagi eru líkur á að hækkun á neðra virðisaukaskattsþrepinu muni skila sér af meiri krafti út í verðlag en lækkun á efra þrepinu og afnám vörugjalda. Í öðru lagi komi aðgerðirnar fram á sama tíma og skuldaleiðrétting stjórnvalda, hækkun barnabóta og afnám auðlegðarskatts. Hærri ráðstöfunartekjur og meiri eftirspurn geti því dregið úr líkum á að verðlag lækki verulega á sumum vörutegundum. Á móti munu krónutölugjöld standa í stað sem er jákvætt hvað verðlagsþróun varði. Þegar horft sé á tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins í heild sinni veki það að minnsta kosti spurningar um hver endanleg verðlagsáhrif verða og hvaða  áhrif frumvarpið mun hafa á kjaraviðræður framundan.

Hóflegur afkomubati

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verði 4,1 milljarður króna á næsta ári og gert ráð fyrir 38,1 milljarða króna afgangi á þessu ári. Að frádregnum einskiptikostnaði er svo gert ráð fyrir að afkoman í ár verði 14,9 milljarðar króna á þessu ári og 27,5 milljarðar á næsta ári.

Greiningardeildin segir um fjárlagafrumvarpið stóru tíðindin þau að afkomubatinn er frekar hóflegur milli ára.

„Ef horft er til greiðsluuppgjörs ríkisins það sem af er ári hafa tekjustofnarnir verið að styrkjast umtalsvert og í ljósi þess hefði mátt búast við ívið betri afkomu á næsta ári. Engu að síður er þetta annað árið í röð þar sem fjárlagafrumvarpið er hallalaust og nú er ennfremur gert ráð fyrir jákvæðum lánsfjárjöfnuði. En það þýðir að á næstu árum getur ríkissjóður dregið úr skuldabréfaútgáfu á innlendum fjármálamörkuðum og einblínt á lækkun skulda. Fyrsta skref í þá átt er stigið í fjárlagafrumvarpinu nú en þar er gert ráð fyrir sölu á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum og virði hlutarins er áætlað um 70 ma.kr. Þeim fjármunum verður ráðstafað í að greiða niður skuldir með því að greiða inn á RIKH 18 bréfið sem gefið var út til að fjármagna nýju bankanna árið 2008.“