Umfang skuldalækkunaráforma ríkisstjórnarinnar er minna en margir áttu von á í kringum síðustu Alþingiskosningar, að mati Hagfræðideildar Landsbankans . Deildin rifjar upp í Hagsjá sinni í dag að við kynningu aðgerðanna hafi verið mikið gert úr því að að þær væru fullfjármagnaðar og að áhrifin á ríkissjóð yrðu óveruleg. Deildin segir ekki víst að full innistæða sé fyrir þessum fullyrðingum. Ríkissjóður þurfi að bera tug milljarða króna kostnað á ári til að byrja með og verði auk þess fyrir verulegu tekjutapi þegar fram í sæki vegna skattaafsláttar á hluta launatekna sem renna til niðurgreiðslu íbúðaskulda. Þá eru væntar tekjur af væntanlegum tekjuskatti ekki í hendi auk þess sem deilt er um lögmæti skattlagningar á þrotabú föllnu bankanna og ekki er hægt að útiloka að málið lendi fyrir dómstólum. Þessu til viðbótar telur hagfræðideildin að þenslu- og verðbólguáhrif aðgerðanna verði eitthvað meiri en gefið var til kynna við kynningu þeirra.

Þá segir hagfræðideildina ð þótt komandi aðgerðir séu umfangsmiklar, og verði kannski einhverjar umfangsmestu opinberu tilfærsluaðgerðir Íslandssögunnar, lítur út fyrir að heimilin reikni ekki með að áhrifin verði mikil á stöðu þeirra.

Hagfræðideildin segir aðgerðirnar hafa margvísleg áhrif á hagkerfið allt og muni þau mælast á lengri tíma og ekki sýnileg strax. Einhver þeirra gætu þó orðið neikvæð á stöðu heimilanna þegar fram í sækir.