Niðurstöður skýrslu starfshóps um umfang skattsvika hér á landi eru því miður á veikum grunni byggðar og geta því með engu móti myndað grundvöll að svo róttækum breytingum sem hópurinn leggur til, segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins um skýrsluna. Í umsögninni kemur fram að SA hafa bent á að skattsvik eru alvarlegt vandamál í tilteknum atvinnugreinum, t.d. veitingastarfsemi og byggingariðnaði, þar sem svört starfsemi hamlar vexti alvöru fyrirtækja.

Samtökin sendu starfshópnum m.a. ábendingar um að einfaldar og skilvirkar skattareglur eru einfaldasta og áhrifaríkasta tækið í baráttu við skattsvik. Þá bentu samtökin starfshópnum á að vaxandi hlutfall skatttekna hins opinbera af vergri landsframleiðslu benda ekki til að undanskot frá helstu tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga fari vaxandi.

Áætlað út frá öðrum löndum

SA gagnrýna að mat starfshópsins byggja ekki á rannsókn hér á landi líkt og áður hefur verið, heldur á byggir matið á mjög grófum áætlunum með hliðsjón af reynslu annarra þjóða, og að teknu tilliti til reynslu síðustu ára í skatteftirliti og skattrannsóknum. Sama á við um umfjöllun skýrslunnar um skattsvik tengd erlendum samskiptum, þar sem starfs-hópurinn reiðir sig fyrst og fremst á niðurstöður erlendra rannsókna og reynir að heimfæra þær á íslenskar aðstæður. Bent er á að að því leyti sem sú umfjöllun vísar með skýrum hætti til íslenskra aðstæðna er að mati SA ljóst að hún er misvísandi og byggist að hluta á rangfærslum.

Tillögur markast af skipan hópsins

Starfshópurinn var skipaður tollstjóranum í Reykjavík, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins. Telja SA að tillögur hópsins markist mjög af því hver þröngt hann var skipaður. Hvergi er minnst á leiðir sem SA hafa bent og víða hafa verið farnar með góðum árangri, þ.e. einfaldari og skilvirkari skattheimtu, lækkun skatthlutfalla og breikkun skattstofna með niðurfellingu undanþága. Hins vegar er settur fram langur listi um hugsanlegar breytingar sem lúta flestar að því að herða eftirlit, efla skattrannsóknir, auka stórlega valdheimildir skattyfirvalda og herða enn viðurlög við skattalagabrotum. Virðist í raun um að ræða eins konar óskalista þeirra embættismanna sem starfshópinn skipuðu.

Byggt á frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.