Fimm lífeyrissjóðir telja Steinunni Guðbjartsdóttur og Pál Eiríksson, sem sitja í slitastjórn Glitnis, hafa oftekið sér yfir 400 milljónir króna í laun fyrir störf sín, og sinna fyrirtækja, fyrir þrotabú bankans. Í frétt Fréttablaðsins segir að sjóðirnir vilji að Héraðsdómur Reykjavíkur láti Steinunni, Pál og fyrirtækin endurgreiða þrotabúinu hin ofteknu laun.

Samkvæmt forsendum sjóðanna hafi þau laun sem Steinunn og Páll hafa greitt sér, alls 842 milljónir króna frá því að þau voru skipuð og fram á mitt síðasta ár, verið mun hærri en sjóðirnir telja eðlilegt.

Lífeyrissjóðirnir fimm eru á meðal kröfuhafa Glitnis. Þeir eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Festa lífeyrissjóður.