Að mati Greiningardeildar KB banka er salan á eignarhlut FL Group í easyJet mjög jákvæð fyrir félagið.

"Um var að ræða stóran eignarhlut sem verið höfðu uppi vangaveltur um hversu auðvelt yrði að selja, ef til þess kæmi. Þá er einnig oft sagt að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, og er það að mati Greiningardeildar mun jákvæðara fyrir FL Group að hafa innleyst þennan mikla hagnað en að eiga hann óinnleystan í bókum sínum. Þá má gera ráð fyrir því að fréttir muni berast á næstunni af fjárfestingum hjá FL Group, en félagið á eftir söluna á hlutnum í easyJet og nýlega afstaðið skuldabréfaútboð um 50 milljarða í handbæru fé sem ólíklegt er að verði látið liggja óhreyft undir koddanum til lengri tíma," segir í Hálffimm fréttum KB banka.