Alþjóðlegir fjárfestar eru sagðir tvístígandi þessa dagana enda óttist þeir að Spánverjar verði næstir næstir í röð evruþjóða til að fara niður á hnén og óska eftir neyðarláni úr björgunarsjóði evrusvæðisins. Þá er beðið eftir nýjustu hagtölum frá Bandaríkjunum um ganginn í efnahagslífinu á öðrum ársfjórðungi.

Hlutabréfavísitölur á meginlandinu endurspegla ástandið ágætlega. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 0,17% það sem af er dags. Á sama tíma hefur DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 0,10% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 0,14%.

Ótti fjárfesta er ekki að ástæðulaus enda blæs ekki beint byrlega fyrir Spánverjum; ríkisstjórnin óskaði í sumar eftir fjárveitingu frá Evrópusambandinu til að koma bönkum landsins á réttan kjöl. Því til viðbótar hefur héraðsstjórn Katalóníu beðið um lán frá spænska ríkinu svo það geti haldið heilbrigðisþjónustu gangandi og greitt af lánum sem eru að falla á gjalddaga.

Í umfjöllun AP-fréttastofunnar um kurr í röðum fjárfesta segir að væntingar séu um að hagkerfi Bandaríkjanna sé að taka við sér. Á hinn bóginn sé talið að reynist gangurinn góður þá muni seðlabanki Bandaríkjanna draga úr stuðningi við efnahagslífið og fjármálageirann. Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, tjáir sig um gang mála á föstudag og má gera ráð fyrir að fjárfestar hlusti grannt á hverja setningu sem hann lætur frá sér með það fyrir augum að sjá fyrir næstu skref bankans.