Í morgun átti framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins fund með forsætisráðherra og utanríkisráðherra til að leggja áherslu á að ríkisstjórnin taki þegar á þeim vanda sem stjórn peningamála og hagstjórnin hefur ratað í. Í frétt SA kemur fram að þeir telja að aðgerðir Seðlabankans skaði atvinnulíf án þess að skila árangri á móti og að bankinn muni ekki að óbreyttu um fyrirsjáanlega framtíð eiga möguleika á því að lækka vexti.

Samtökin telja að fyrstu aðgerðir verða að beinast að því að skapa forsendur fyrir lækkandi verðbólgu. Hafa verður hemil á aukningu samneyslu og tilfærsluútgjalda. Lækka verður lánshlutföll íbúðalánasjóðs og lánsfjárhæðir. Ríkisstjórnin þarf að gefa Seðlabankanum skýr skilaboð um að hún ætlist til þess að bankinn vinni ekki gegn trúverðugleika efnahagsstefnunnar og gegn væntingum um lægri verðbólgu. Það gefur Seðlabankanum tækifæri til þess að komast úr sjálfheldu hárra vaxta en það vekur von um að gengi krónunnar verði stöðugra og lægra en nú og þannig meira í takt við getu atvinnulífsins og stöðuna í viðsk! iptum við útlönd.

Framkvæmdastjórnin afhenti forsætisráðherra bréf þar sem þessum sjónarmiðum er lýst


Í leiðara fréttabréfs SA kemur fram sú skoðun að ríkisstjórnin þurfi nú þegar að taka á þeirri sjálfheldu sem stjórn peningamála og hagstjórnin hefur ratað í. "Þetta verkefni er afar brýnt vegna þess að aðgerðir Seðlabankans hafa skaðað atvinnulífið án þess að skila árangri á móti og atvinnulífið getur ekki þolað þá skertu samkeppnisstöðu sem of há verðbólga, viðvarandi háir vextir og óhóflegar gengissveiflur hafa skapað. Seðlabankinn hefur á undanförnum misserum hækkað stýrivexti en þeir eru nú 14,25%. Á þeim tíma hefur gengi krónunnar sveiflast fram og til baka, bæði hækkað ótæpilega, en síðan lækkað á ný. Nú fer gengið enn á ný hækkandi og er orðið alltof hátt miðað við stöðu atvinnulífsins og jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Útlit er fyrir að gengið eigi eftir að hækka enn frekar áður en það lækkar á ný. Gengið mun þá lækka þrátt fyrir háa stýrivexti Seðlabankans og bankinn mun ekki að óbreyttu um fyrirsjáanlega framtíð sjá möguleika á því að lækka vexti," segir í leiðaranum.