Greiningardeild Íslandsbanka telur að stutt sé í að Seðlabankinn hækki vexti og það jafnvel um 25 til 50 punkta. Íslandsbankamenn telja að vaxtahækkunin komi fyrir lok næsta mánaðar. Líklegasti tímapunkturinn í þeim efnum er 17. september, samhliða útgáfu Peningamála, en ekki er hægt að útiloka að bankinn hækki vexti fyrr. Verðbólgan er núna ríflega prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði bankans og líkur eru á því að hún verði yfir markmiðinu a.m.k. næstu 1-2 árin, að óbreyttu aðhaldsstigi í peningamálum.

Í Morgunkorni sínu bendir Greiningardeildin á að Seðlabankinn hefur nú á um tveimur mánuðum hækkað vexti sína úr 5,3% upp í 6,25% eða um 0,95 prósentustig. Hækkunin hefur átt sér stað í þremur skrefum. Samhliða síðustu vaxtahækkun Seðlabankans, sem var í byrjun júlí, sagði bankinn að hann myndi hækka stýrivexti sína fljótlega aftur ef nýjar upplýsingar gæfu ekki sterkar vísbendingar um betri verðbólguhorfur. "Ekki verður séð að verðbólguhorfur hafi batnað frá því að hann gaf út þá yfirlýsingu. Þó svo að bankinn muni grípa enn frekar í taumana á næstu mánuðum og að hann fari með stýrivexti sína í 8% um mitt næsta ár, þá er það engu að síður spá okkar að verðbólgan muni haldast há áfram og mælast nokkuð yfir markmiði bankans bæði yfir þetta og næsta ár," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.