*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 21. janúar 2013 09:23

Telja Sundara hafa tekið 1,6 milljarða úr IceCapital

Skiptastjóri þrotabús IceCapital hefur höfðað fimmtán mál gegn fyrrverandi eigendum.

Ritstjórn
Sund var helsti eigandi VBS fjárfestingarbanka með 12,5% hlut.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skiptastjóri þrotabús IceCapital ehf hefur höfðað 15 riftunarmál gegn fyrrverandi eigendum félagsins og félögum þeim tengdum. Hann telur að fyrrverandi eigendur IceCapital hafi tekið eignir og fjármuni út úr félaginu fyrir tæpa 1,6 milljarða króna. 

Fjallað er um málið í DV í dag.

Fyrrverandi eigendur IceCapital ráku fjárfestingarfélag Sund. Það eru þau Gunnþórunn Jónsdóttir, ekkja Óla Kr. Sigurðssonar, sem löngum var kenndur við Olís, og börn hennar. Félagið var umsvifamikið í viðskiptalífinu fyrir hrun, átti m.a. hluti í Landsbankanum, Kaupþingi og Byr auk þess að vera stærsti hluthafi VBS fjárfestingarbanka með 12,5% hlut. Þá keypti Sund haustið 2007 bílaumboðið B&L í gegnum dótturfélag sitt. Fjallað er um Sund og tengd félög í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir m.a. að heildarskuldir félaganna hafi numið um 64 milljörðum króna við bankahrunið.

 IceCapital var dótturfélag Sunds en Sund innlimaði það í reksturinn í júlí árið 2008. Riftunarmál skiptastjóra IceCapital lúta að gjörningum frá haustinu 2008 og fram til ársins 2012 þegar IceCapital var tekið til gjaldþrotaskipta.