Nefnd, sem skipuð var af Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, hefur skilað af sér skýrslu um framtíðarfyrirkomulag á lánastarfsemi Byggðastofnunar. Nefndin telur að full þörf sé á starfsemi stofnunarinnar og leggur til ýmsar úrbætur í skýrslunni. Meðal þess sem nefndin leggur til er að athugað verði hvort Byggðastofnun geti verið undanskilin þeim kröfum sem gerðar er til eiginfjárhlutfalls fjármálafyrirtækja.

Fram kemur að í fjárlögum fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir 1.000 milljóna króna framlagi til stofnunarinnar að fenginni greinargerðinni. Byggðastofnun hlaut einnig framlag á fjáraukalögum árið 2009 og fjárlögum árið 2010. Upphæðin nam alls 3.600 milljónum króna, til að koma eiginfjárhlutfalli stofnunarinnar yfir lögboðið lágmark fjármálafyrirtækja. Frekari framlög ríkissjóðs til reksturs stofnunarinnar námu 367,5 milljónum króna. FME hefur veitt Byggðastofnun frest til 16. september 2011 til að koma eiginfjárgrunni yfir lögbundin mörk.

Í nefndinni áttu sæti þau Lárus Á. Hannesson, Valgerður Bjarnadóttir, Finnbogi Vikar, Herdís Á. Sæmundardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sturla Böðvarsson og Gunnar Svavarsson, formaður.

Eins og áður segir telur nefndin að full þörf sé á starfsemi Byggðastofnunar. Þótt eftirspurn eftir lánsfé frá Byggðastofnun hafi verið í sögulegu lágmarki á árinu 2010 var mikil eftirspurn eftir lánsfé árið 2008. Undanfarin þrjú ár hafi einkennst af sveiflum og óvissu, og gefi því ekki rétta mynd af starfsemi stofnunarinnar. „Endurskoðun á 11. gr. laga um Byggðastofnun mun ekki ein og sér ná fram því meginmarkmiði sem stefnt er að, að Byggðastofnun sem fjármálafyrirtæki viðhaldi eiginfjárgrunni sínum. Því er mikilvægt að iðnaðarráðherra endurskoði í heild lög og reglugerð um Byggðastofnun, og á slík endurskoðun að fela í sér virkari eigendastefnu ríkisins en verið hefur hvað stofnunina snertir.“

Skýrsla nefndarinnar.