Greiningardeild KB banka telur yfirtökutilboð Atorku í hlutabréf Jarðborana 19,6% lægra en verðmat þeirra á núverandi rekstri Jarðborana og myndi að þeirra mati ekki endurspegla áætlað verðmæti félagsins.

Greiningardeildin bendir á að hafa verði í huga að hluthöfum Jarðborana er ekki skylt að selja sín bréf í félaginu og hefur Kauphöllinn heimild til að fresta afskráningu þeirra um eitt ár. Stjórn félagsins sjálfs getur hins vegar ákveðið afskráningu þess að þeim tíma loknum og minnihlutahluthafar virðast ekki eiga neinar varnir við því. Greiningardeild KB banka telur því rétt að benda hluthöfum á þann kost að taka ekki yfirtökutilboðinu, en ítrekar að því geti fylgt töluverð áhætta.

Í kjölfar yfirtökutilboðsins hyggst Atorka afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Núverandi hluthöfum Jarðborana mun því bjóðast að selja hluti sína í félaginu í skiptum fyrir hlutabréf Atorku Group. Samkvæmt lögum þarf kaupverðið að lágmarki vera jafnt hæsta verði sem Atorka hefur greitt fyrir hluti í Jarðborunum síðustu sex mánuði, en það þýðir að yfirtökutilboðið verður líklega á genginu 25,0 og hluthafar Jarðborana fái bréf Atorku á genginu 6,0. "Ef það verður raunin getum við alls ekki mælt með að hluthafar Jarðborana taki tilboðinu. Á það ekki síst við ef greitt verður með hlutabréfum Atorku, sem eru að okkar mati ekki jafn áhugaverður fjárfestingarkostur og hlutabréf Jarðborana," segir greiningardeild KB banka í áliti sínu.