Að sögn Haraldar Yngva Péturssonar, sérfræðings hjá IFS ráðgjöf virkar tilboð það sem komið hefur fram í ráðandi hlut í Össuri hf. ekki mjög spennandi. "Þetta endurspeglar ekki sjóðsstreymismælingu félagsins að okkar mati," sagði Haraldur Yngvi.

Komið hefur fram að lagt hefur verið fram tilboð í hluti í Össuri á genginu einn Bandaríkjadalur á hlut (rúmlega 50% yfirverð miðað við lokun í gær) eða 112 krónur miðað við núverandi gengi.  Í tilefni þess hefur IFS ráðgjöf tekið saman kennitölusamanburð fyrir félagið miðað við það verð.

Að sögn Haraldar Yngva er Össur verðlagt sambærilega og önnur félög í heilbrigðisgeiranum eru á markaði í dag miðað við þetta tilboð og allir vita að verð verðkennitölur á markaði eru nú lágar í sögulegu samhengi. "Tilboð uppá einn dal á hlut virkar því ekki sérlega áhugavert við fyrstu sýn og ég myndi vilja sjá hærra verð," sagði Haraldur Yngvi.