Breskir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hafði samband við í morgun telja að tilkynning FL Group til Kauphallar Íslands og birtist á Regulatory News Service (RNS), fréttaveitu London Stock Exchange, gefi til kynna að félagið hafi áhuga á að auka hlut sinn í breska flugfélaginu easyJet.

Sérfræðingarnir segja einnig að þeim þyki ekki ólíklegt að FL Group sé að vinna að yfirtökutilboði.

Tilkynningin var birt í gær vegna ummæla, sem höfð voru eftir framkvæmdastjóra Icelandair, Jóni Karli Ólafssyni, í skoska dagblaðinu The Scotsman í síðustu viku.

Jón segir í viðtalinu að Icelandair og easyJet muni ekki sameinast og að ekkert sé að gerast. Í tilkynningu segir að FL Group taki slíkar ákvarðanir. ?Icelandair er eitt af 14 dótturfélögum FL Group og allar ákvarðanir um fjárfestingar FL Group í easyJet eru teknar af stjórnendum móðurfélagsins FL Group. Ummælin sem eignuð eru Jóni Karli Ólafssyni endurspegla því ekki viðhorf FL Group til fjárfestinga í easyJet," segir í tilkynningunni.

FL Group segir tilkynninguna hafa verið gefna út vegna reglna breska hlutabréfamarkaðarins, en útskýrir ekki um hvaða reglur er átt við.

Samkvæmt yfirtökureglum í Bretlandi má fyrirtæki ekki gera yfirtökutilboð í annað félag fyrr en eftir sex mánuði ef fyritækið neitar því opinberlega. Einnig verður hlutur fyrirtækisins að vera undir 30%. FL Group á 11,5% í easyJet.

Bakkavör neitaði því í breskum fjölmiðlum að fyrirtækið hefði áhuga á að taka yfir Geest Plc, þó svo að það hefði verið að auka eignarhlut sinn jafnt og þétt. Bakkvör varð því að bíða í sex mánuði áður en fyrirtækið gat tekið yfir Geest, sem gerðist fljótlega eftir að yfirtökubanninu var aflétt.