Verkalýðshreyfingin í Evrópu telur tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipun um þjónustuviðskipti með öllu óásættanlega. Tillagan ógnar réttindum og kjörum launafólks, núverandi fyrirkomulagi samskipta á vinnumarkaði og réttinum til að semja um kaup og kjör. Framkvæmdin gæti ennfremur skaðað grundvöll almannaþjónustu í ríkjum Evrópu og þá samfélagsgerð sem Evrópusamvinnan byggir á - þ.e. um réttindi og velferð þegnanna og félagslega samstöðu.

Alþýðusambandið hefur komið þessum sjónarmiðum á framfæri á vettvangi ETUC - Evrópusambands verkalýðsfélaga. Jafnframt leggur ASÍ áherslu á að íslensk stjórnvöld styðji þessi sjónarmið og komi þeim á framfæri í samstarfi stjórnvalda á norrænum og evrópskum vettvangi, enda ljóst að tillagan hefði sambærilegar afleiðingar hér og annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu eins og má sjá í frétt á heimasíðu ASÍ

"Evrópsk verkalýðshreyfing telur tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipun um þjónustuviðskipti með öllu óásættanlega. Verkalýðshreyfingin hefur stutt ákvörðunina um sameiginlegan innri markað Evrópuríkja sem stuðlað gæti að meiri hagvexti, aukinni atvinnu og velferð í Evrópu. Tillagan að tilskipuninni eins og hún liggur fyrir nú er hins vegar meingölluð. Hún ógnar réttindum og kjörum launafólks, núverandi fyrirkomulagi samskipta á vinnumarkaði og réttinum til að semja um kaup og kjör. Þá gæti framkvæmd hennar stórlega skaðað grundvöll almannaþjónustu í ríkjum Evrópu og þá samfélagsgerð sem Evrópusamvinnan byggir á, um réttindi og velferð þegnanna og félagslega samstöðu.

Með framangreind sjónarmið í huga leggst verkalýðshreyfingin alfarið gegn samþykkt tillögunnar nema á henni verði gerðar umfangsmiklar og gagngerar breytingar. Alþýðusamband Íslands hefur þegar komið þessum sjónarmiðum á framfæri í gegnum aðild sína að Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC). Jafnframt leggur ASÍ ríka áherslu á að íslensk stjórnvöld styðji þessi sjónarmið og komi þeim á framfæri í samstarfi stjórnvalda á norrænum og evrópskum vettvangi, enda ljóst að tillagan hefði sambærilegar afleiðingar hér og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu," segir í fréttinni á heimasíðu ASÍ.

Gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu byggir í grunninn á þeim skorti á félagslegri sýn sem tillaga framkvæmdastjórnar ESB einkennist af. Tillagan gengur út frá markaðsfrelsi á sviði þjónustuviðskipta án þess að meta mögulegar samfélagslegar afleiðingar þess, eða setja fram skýr félagsleg markmið í anda Lissabon ferilsins, sem tillögunni er þó ætlað að styrkja. Meginmarkmiðið sem sett var fram með Lissabon ferlinu er að Evrópa verði samkeppnishæfasta þekkingardrifna hagkerfið, sem tryggði fleiri og betri störf og félagslega samstöðu, byggðu á sjálfbærri þróun.