Verð hlutabréfa í Kauphöll Íslands hefur lækkað snarplega það sem af er degi í dag. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að eðlilegt sé að tala um leiðréttingu þar sem hækkanir hafa verið nær látlausar frá áramótum. Icex-15 vísitalan hefur lækkað það sem af er degi um 1,9% en engu að síður nemur hækkunin frá áramótum 10,8%.

Mikil stemning hefur ríkt á markaðnum að undanförnu en nú styttist verulega í birtingu uppgjöra fyrir fjórða ársfjórðung 2005. Rekstur flestra félaga í Icex-15 gengur vel en engar markaverðar fréttir hafa borist að undanförnu ef frá er talin sala Straums-Burðaráss á stórum eignarhlut í Íslandsbanka.