Greiningardeild Landsbankans telur að breytingar þær sem Dagsbrún tilkynnti um í dag séu til góðs og liður í að skerpa á áherslum rekstrareininganna tveggja.

"Samhliða miklum ytri vexti höfum við gagnrýnt Dagsbrún fyrir óljósa framtíðarsýn þar sem á tíðum hefur skort á nægjanlegt gegnsæi. Með skiptingu félaganna í tvö rekstrarfélög verður rekstur þeirra gegnsærri og þar með hluthöfum til góðs," segir greiningardeildin í Vegvísi í dag.

Greiningardeildin telur að kaupin á Kögun sé meginástæðan fyrir því hvernig fór. "Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að mikill ytri vöxtur undanfarin misseri hefur reynst félaginu of stór biti. Vísum við hér fyrst og fremst til kaupanna á Kögun en rökstuðningur fyrir kaupunum er ekki nægilega sannfærandi. Við erum því enn þeirrar skoðunar að Dagsbrún hafi keypt Kögun á háu verði," segir greiningardeildin.