Fjármálastjórar íslenskra fyrirtækja eru umtalsvert bjartsýnni á útlitið næstu mánuði heldur en þeir voru fyrir hálfu ári. Um fimmtungur þeirra segir að tekjur fyrirtækis síns nú séu áþekkar eða meiri en þær voru á sama tímabili í fyrra, en einn af hverjum sex telur að batinn muni dragast fram til ársins 2022 hið minnsta. Fyrirtæki í verslun, þjónustu og sjávarútvegi eru bjartsýnni en aðrir en svartsýnin er sýnilega mest í sjávarútvegi. Þetta er meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum fjármálakönnunar Deloitte. Könnunin nær til tæplega 1.600 fjármálastjóra í nítján löndum.

Könnunin er lögð fyrir tvisvar á ári, það er að vori og síðan að hausti, en tímabil hennar nú spannaði miðjan septembermánuð. Síðast var hún framkvæmd í mars eða um það leyti sem fyrsta bylgja faraldursins stóð sem hæst. Á ný gerðist það að gangur pestarinnar var neikvæður eftir að könnunin var lögð fyrir.

„Í vor höfðum við smá áhyggjur af því að niðurstöðurnar væru í raun orðnar úreltar um það bil sem þær birtust og gerðum fyrirvara þar um. Staðan þá var mjög dökk og niðurstöðurnar nú bera þess merki að staðan sé ekki góð. Það er þó ánægjulegt að sjá að svartsýnin nú er töluvert minni en í vor,“ segir Lovísa A. Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte.

Samkvæmt könnuninni nú eru 38% fjármálastjóra hér á landi jákvæð á þróun tekna samanborið við 21% í vor. Nettóhorfurnar eru þó enn neikvæðar eða -2%. Ísland er, líkt og yfirleitt áður, nokkuð svartsýnna en Evrópumeðaltalið og nú munar fjórðungi á nettóviðhorfum. Á sama tíma í fyrra var munurinn aðeins tvö prósent. Hvað þróun EBITDA varðar eru íslenskir fjármálastjórar á pari við starfsbræður sína úti, 41% er jákvætt á þróun stærðarinnar. Tveir af hverjum þremur telja líklegt að efnahagsreikningur fyrirtækis síns verði sterkur og sjóðstaða góð og tæplega helmingur að auðvelt verði að afla lánsfjár á hagstæðum kjörum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .